Sigurganga Phoenix Suns heldur áfram í NBA deildinni og í dag burstaði liðið Washington á útivelli 127-105 og vann sinn 14. leik í röð. Dallas virðist einnig ósigrandi þessa dagana og skellti Orlando nokkuð auðveldlega á útivelli 111-95.
Phoenix beið ekki boðanna gegn Washington og vann fyrsta leikhlutann 41-20 og leit aldrei til baka eftir það. Washington var einmitt síðasta liðið sem náði að leggja Phoenix, en þá hafði liðið verið fast í snjóstormi í Colorado og mætti ekki fyrr en tveimur tímum fyrir leik. Steve Nash fór hamförum hjá Phoenix og skoraði 27 stig og gaf 14 stoðsendingar og hitti úr 11 af 13 skotum sínum. Gilbert Arenas skoraði 31 stig fyrir Washington en datt ekki í gírinn fyrr en úrslit leiksins voru nánast ráðin. Washington hafði unnið tíu leiki í röð á heimavelli.
Dallas er sömuleiðis á mikilli siglingu eins og raunar í allan vetur og Dirk Nowitzki fór á kostum í sigrinum á Orlando með 33 stigum, 10 fráköstum og 8 stoðsendingum. Jameer Nelson skoraði 23 stig fyrir Orlando.
Denver vann annan leikinn í röð eftir að Carmelo Anthony sneri aftur úr leikbanni þegar það skellti Seattle 117-112. Anthony skoraði 34 stig og hirti 9 fráköst en Ray Allen skoraði 44 stig fyrir Seattle.
Philadelphia vann sjaldgæfan sigur á liði New Orleans 102-96. Kyle Korver skoraði 25 stig fyrir Philadelphia en Devin Brown 24 fyrir New Orleans.
Chicago lagði Atlanta 94-86. Luol Deng skoraði 18 stig fyrir Chicago en Joe Johnson skoraði 29 stig fyrir Atlanta.
Loks vann LA Clippers auðveldan sigur á meiðslum hrjáðu liði Milwaukee 115-96. Elton Brand skoraði 25 stig fyrir Clippers en Charlie Bell 24 fyrir Milwaukee.
Staðan í deildinni:
ATLANTIC
1. NJN 20-21
2. TOR 20-22
3. NYK 18-25
4. BOS 12-28
5. PHI 12-30
SOUTHWEST
1. DAL 35-8
2. SAS 30-13
3. HOU 25-16
4. NOR 16-24
5. MEM 10-32
CENTRAL
1. DET 23-16
2. CLE 24-17
3. CHI 24-19
4. IND 21-20
5. MIL 17-24
NORTHWEST
1. UTH 28-14
2. DEN 22-17
3. MIN 20-20
4. POR 17-25
5. SEA 16-26
SOUTHEAST
1. WAS 24-17
2. ORL 23-20
3. MIA 19-22
4. CHA 14-26
5. ATL 13-26
PACIFIC
1. PHO 33-8
2. LAL 27-15
3. LAC 20-21
4. GSW 19-23
5. SAC 16-23