Að minnsta kosti 26 manns létu lífið og 64 slösuðust þegar bílsprengja sprakk í Karrada verslunarhverfinu í Bagdad í dag. Fyrr um daginn voru gerðar tvær árásir á markaði í Bagdad og létust átta manns í þeim. Heildartala látinna í dag er því komin upp í 34.
Árásin var gerð stuttu eftir að tveimur klasasprengjum hafði verið varpað á Græna hverfið svokallaða í Bagdad en í því er meðal annars bandaríska sendiráðið og íraskar stjórnarbyggingar. Á sama tíma og árásirnar áttu sér stað vann forsætisráðherra Íraks, Nuri al-Maliki, mikilvæga atkvæðagreiðslu í þinginu sem gerir honum kleyft að herða öryggisaðgerðir í og kringum Bagdad.