Framherjinn Carlos Boozer hjá Utah Jazz verður frá keppni í 4-6 vikur eftir að í ljós kom að hann er með brákað bein í fæti eftir samstuð í leik gegn New Orleans á mánudagskvöldið. Þetta er mikið áfall fyrir lið Utah sem komið hefur verulega á óvart í NBA deildinni í vetur.
Boozer hefur átt frábært tímabil með Utah hefur skorað að meðaltali 22,1 stig og hirt 11,8 fráköst að meðaltali í leik. Talið var víst að Boozer kæmi til greina sem varamaður í Stjörnuleikinn sem fram fer í næsta mánuði, en tilkynnt verður um varamenn í leikinn annað kvöld.