Hjónaband hans endaði með skilnaði, enginn keypti plötuna hans og nú leikur hann sjálfan sig í sjónvarpsauglýsingum að vinna á hamborgarastað. Til þess að taka af allan vafa um hvort frægðarsól Kevin Federline sé að hníga til viðar bauð skyndibitakeðjan Taco Bell honum að vinna í klukkutíma á einum veitingastað þeirra.
Tilboðið barst Federline, eða K-Fed eins og hann er kallaður, nokkrum dögum áður en sjónvarpsauglýsingin með honum verður sýnd. í henni leikur hann sjálfan sig. Hann virðist vera frægur rappari en rankar svo við sér sem starfsmaður á hamborgarastað.
Samtök veitingahúsaeigenda í Bandaríkjunum sögðu auglýsinguna niðurlægjandi og vildu að hætt yrði við að sýna hana. Framleiðendur auglýsingarinnar segja þó að auglýsingin geri ekki grín að neinum, nema kannski K-Fed sjálfum, en auglýsingin verður sýnd í hálfleik í SuperBowl leiknum um helgina.
Talsmenn Taco Bell segja starfstilboð sitt þó vera raunverulegt en að enn hafi ekki verið rætt um peninga.