Körfubolti

15 töp í röð hjá Boston

NordicPhotos/GettyImages

Boston tapaði í nótt 15. leiknum í röð í NBA deildinni og ekkert lát virðist vera á hrakförum liðsins, þar sem aðalstjarnan Paul Pierce er enn langt frá því að snúa aftur úr erfiðum meiðslum. Boston steinlá fyrir Detroit í nótt og nú hefur liðið tapað 23 af 25 leikjum meðan Pierce er meiddur.

Detroit vann auðveldan sigur á Boston í nótt 109-102 þar sem lokaúrslitin gefa ekki rétta mynd af því hve ójafn leikurinn var. Chauncey Billups skoraði 24 stig fyrir Detroit en Ryan Gomes skoraði 19 stig fyrir Boston sem vann síðast leik 5. janúar.

New York vann góðan sigur á LA Clippers 102-90 þar sem Elton Brand skoraði 22 stig og hirti 13 fráköst fyrir Clippers líkt og Tim Thomas en þeir Eddy Curry og Jamal Crawford skoruðu 23 stig hvor fyrir New York.

Milwaukee lagði Orlando 116-111 þar sem Dwight Howard skoraði 21 stig og hirti 11 fráköst fyrir Orlando en Ruben Patterson skoraði 27 stig fyrir Milwaukee, sem hafði tapað fjórum leikjum í röð.

Houston vann fjórða og síðasta leik sinn við Memphis í vetur 98-90 í beinni á NBA TV sjónvarpsstöðinni. Tracy McGrady skoraði 33 stig fyrir Houston en Pau Gasol skoraði 30 stig og hirti 13 fráköst fyrir Memphis. Memphis vann Houston 4-0 á síðustu leiktíð en í ár snerist dæmið við og var framherjinn Shane Battier alltaf í sigurliðinu í þessum 8 leikjum. Hann var hjá Memphis í fyrra en gekk í raðir Houston í sumar.

Lokaleikur næturinn var svo viðureign Portland og Phoenix, þar sem Phoenix var án Steve Nash sem er meiddur á öxl. Phoenix hafði loks sigur í framlengingu 109-102. Leandro Barbosa tók við stöðu Steve Nash og skoraði 25 stig, gaf 7 stoðsendingar, hirti 6 fráköst og stal 4 boltum, en Amare Stoudemire var öflugastur í liði Phoenix með 36 stig og 9 fráköst. Zach Randolph skoraði 33 stig og hirti 10 fráköst fyrir Portland og Brandon Roy skoraði 27 stig.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×