Körfubolti

13 í röð hjá Dallas

Josh Howard lét snúinn ökkla ekki stöðva sig í nótt og skoraði 15 stig í fyrri hálfleik
Josh Howard lét snúinn ökkla ekki stöðva sig í nótt og skoraði 15 stig í fyrri hálfleik NordicPhotos/GettyImages

Dallas heldur áfram að mala andstæðinga sína í NBA deildinni og í nótt vann liðið Minnesota á útivelli 91-65 og þar með 13. sigurinn í röð. Leikurinn var sýndur beint á NBA TV og áttu heimamenn aldrei möguleika eftir að Dallas-vörnin hélt þeim í aðeins 27 stigum í fyrri hálfleiknum. Þá hefur Phoenix unnið alla útileiki sína gegn liðum úr Austurdeildinni í vetur og setti nýtt met í nótt.

Dirk Nowitzki skoraði 23 stig og hirti 14 fráköst fyrir Dallas, Jason Terry skoraði 18 og Josh Howard var óvænt með eftir að hafa snúið sig á ökkla kvöldið áður og skoraði 15 af 17 stigum sínum í fyrri hálfleik. Kevin Garnett skoraði 15 stig og hirti 13 fráköst fyrir Minnesota.

Phoenix Suns lagði Indiana á útivelli 103-92. Phoenix tryggði sér sigur með því að vinna lokaleikhlutann 30-13. Steve Nash skoraði 25 stig og gaf 11 stoðsendingar fyrir Phoenix og Amare Stoudemire skoraði 23 stig og hirti 18 fráköst. Jermaine O´Neal átti frábæran leik hjá Indiana og skoraði 28 stig, hirti 13 fráköst, gaf 7 stoðsendingar og varði 6 skot.

Þetta var 14. útisigur Phoenix í jafnmörgum leikjum á liði úr Austurdeildinni sem er besti árangur í slíkum leikjum í sögu NBA. Phoenix getur tryggt sér útisigra á öllum liðum úr Austurdeildinni með því að leggja Philadelphia í næsta leik, sem er strax í kvöld.

Cleveland lagði New Orleans 97-89 þar sem LeBron James skoraði 35 stig og tvo þrista á síðustu mínútunni sem tryggðu liðinu sigurinn. David West skoraði 25 stig og hirti 10 fráköst hjá New Orleans.

New Jersey lagði Washington 113-101 og vann þar með þriðja leikinn í röð. Vince Carter skoraði 27 stig fyrir New Jersey og Jason Kidd var með 26 stig, 9 fráköst og 8 stoðsendingar. Gilbert Arenas skoraði 26 stig fyrir Washington.

Milwaukee burstaði Golden State 122-101. Michael Redd skoraði 31 stig fyrir Milwaukee en Monta Ellis skoraði 17 fyrir Golden State. Þetta var í fyrsta sinn sem Milwaukee vinnur tvo leiki í röð síðan í byrjun janúar, en liðið hefur unnið 5 leiki og tapað 22 á árinu.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×