Spænska knattspyrnufélagið Barcelona neitar að tjá sig um fréttir þess efnis að Eiður Smári Guðjohnsen, fyrirliði íslenska landsliðsins í knattspyrnu, sé hugsanlega á leið frá félaginu og aftur til Englands.
Breska blaðið Sun greindi frá því fyrr í vikunni að Sir Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, hefði áhuga á að kaupa Eið Smára fyrir átta milljónir punda eða rétt um milljarð króna.
Fram kemur á fréttavef Sky-sjónvarpsstöðvarinnar að Manchester United eigi í vandræðum með framherja þar sem Louis Saha og Ole Gunnar Solskjær eigi báðir í meiðslum og bent er á að Eiður Smári hafi aðeins verið í byrjunarliði Barca í þrettán leikjum í spænsku deildinni en engu að síður hafi hann skorað fimm mörk.