Fyrsta degi í munnlegum málflutningi í Baugsmálinu lauk laust eftir klukkan fjögur í dag eftir að Sigurður Tómas Magnússon, settur saksóknari, hafði eftir hádegið farið yfir hluta af þeim köflum ákærunnar sem snúa að meintum bókhaldsbrotum Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, forstjóra Baugs, og Tryggva Jónssonar, fyrrverandi aðstoðarforstjóra fyrirtæksins.
Sigurður Tómas sagði mjög mikla annmarka hafa verið á bókhaldsfærslum hjá Baugi á árunum 2000 og 2001 en í ákæruliðunum sem um ræðir er Jóni Ásgeiri og Tryggva gefið að sök að hafa látið færa viðskipti í bókhald Baugs sem áttu sér ekki stoð í raunveruleikanum í þeim tilgangi að fegra afkomu félagsins.
Benti Sigurður á að mörgum tekjufærslanna sem ákært er fyrir hefði ekki verið ætlað standa til frambúðar í bókhaldinu því þær hefðu verið bakfærðar. Forsvarsmenn Baugs hefðu með því reynt að búa til hagnað til skamms tíma og þannig hugsanlega haft áhrif á gengi bréfa í félaginu, en Baugur var almenningshlutafélag á þessum tíma.
Sakaði Sigurður Tómas ákærðu um að nota grófar aðferðir við búa til fylgiskjöl með bókhaldsfærslum og jafnvel færa bókhald án tilskilanna fylgiskjala. Sett hefðu verið á svið viðskipti við tengd félög til þess að búa til hagnað. Sagði hann afkomu Baugs á árunum 2000 og 2001 ekki hafa verið í samræmi við væntingar stjórnenda félagsins og greiningardeilda bankanna og því hefðu ákærðu gripið til þess ráð að fegra stöðu félagsins.
Fyrri hluta dags hafði Sigurður Tómas flutt mál sitt vegna meintra ólöglegra lánveitinga sem Jón Ásgeir Jóhannesson á að hafa hlutast til um frá Baugi til félaganna Gaums og Fjárfars auk Kristínar systur sinnar, en alls er um átta ákæruliði að ræða í þeim hluta ákærunnar. Reiknað er með að Sigurður Tómas ljúki umfjöllun sinni um meint bókhaldsbrot og meintan fjárdrátt Jóns Ásgeirs og Tryggva á morgun en á miðvikudag og fimmtudag flytja verjendur sakborninga í sitt mál. Í kjölfarið verður málið svo lagt í dóm.