Sigurður Tómas Magnússon settur saksóknari í Baugsmálinu lauk nú fyrir stundu munnlegum málflutningi sínum fyrir Héraðsdómi. Í dag fjallaði hann um meint bókhaldsbrot Jóns Ásgeirs Jóhannssonar forstjóra Baugs og Tryggva Jónssonar fyrrverandi aðstoðarforstjóra fyrirtækisins.
Sigurður fór einnig yfir fjárdrátt í tengslum við skemmtibátinn Thee Viking og meinta misnotkun Tryggva á greiðslukorti Nordica. Í þeim ákærulið er Tryggvi sakaður um að láta Baug borga kostnað af greiðslukorti Nordica sem hefði átt að falla á hann sjálfan.
Á morgun mun Gestur Jónsson verjandi Jóns Ásgeirs flytja sitt mál. Þá er gert ráð fyrir að Jakob Möller verjandi Tryggva og Brynjar Níelsson verjandi Jóns Geralds Sullenbergers flytji sín mál fyrir dómnum á fimmtudag.