Gestur Jónsson verjandi Jóns Ásgeirs Jóhannessonar flutti lokaorð sín í Baugsmálinu nú rétt í þessu. Hann sagði að alþjóðleg greiningarfyrirtæki teldu meginverðmæti Baugs liggja í heilabúi Jóns Ásgeirs. Ásakanirnar í málinu væru mjög alvarlegar fyrir hann. Minnsta sakfelling yrði til þess að hann yrði að láta af stjórnarstörfum og sem forstjóri Baugs í þrjú ár.
Gestur var þeirrar skoðunar að ekki gæti komið til sakfellingar. Það yrði hins vegar engin smá ákvörðun að sakfella Jón Ásgeir.
Gestur fjallaði einnig um ákærulið sem segir að Jón Ásgeir og Tryggvi hafi dregið Gaumi fé frá Baugi til að fjármagna rekstur skemmtibársins Thee Viking í Flórída.
Hann ítrekaði að ekki hefði verið gerð tilraun hjá lögreglu til að bera saman samskipti Baugs og Simons Agentur í því sambandi. Sams konar reikningar hafi verið greiddir vegna Simons Agentur og Nordica. Fyrirtækið hefði gengt sama hlutverki í Evrópu og Nordica gengndi í Bandaríkjunum. Þau hefðu bæði verið stofnuð í tengslum við Bónus. Bæði hefðu flutt inn vörur og komið með nýjar sambærilegar vörur sem verslanir Bónus buðu upp á.
Þá hefðu bæði fyrirtækin komið Baugi í viðskipti við stóra aðila í útlöndum. Tilgangur beggja var að halda þrýstingi á innlenda birgja. Þau hafi fengið mánaðarlegar greiðslur og verið einu birgjarnir sem fengu fyrirframgreiddar vörur.
Mjög mikilvægt sé að texti á reikningum til beggja aðila hafi efnislega verið sá sami.
Gestur sagði ennfremur að ekki hefði verið sannað að Gaumur hefði átt neitt í bátnum. Hann benti á að Jón Gerald hefði tekið einhliða ákvörðun um að selja bátinn og hirt ágóðann. Það bendi ekki til þess að Baugsmenn hefðu átt hlut í honum.
Þá gerði Gestur alvarlegar athugasemdir við trúverðugleika Jóns Geralds og sagði hann hafa borið þungan hug til Jóns Ásgeirs. Meðal annars hefði hann sakað Jón Ásgeir um að fara í fjörurnar við eiginkonu sína. Þá hefði hann játað að hafa hótað Jóni Ásgeiri lífláti.
Það yrði að vara sig á gögnum frá manni sem væri slíkur hatursmaður Jóns Ásgeirs.