Barcelona vann í gærkvöld mikilvægan sigur á Deportivo 2-1 í spænsku deildinni í knattspyrnu og náði þar með þriggja stiga forystu á Sevilla sem er í öðru sætinu, en á leik til góða.
Leo Messi kom Börsungum á bragðið á Nou Camp í kvöld með marki á 44. mínútu og Samuel Eto´o bætti öðru marki við í upphafi síðari hálfleiks. Meistararnir komust þó ekki lengra því Adrian minnkaði muninn fyrir gestina á 68. mínútu og voru heimamenn í raun heppnir að hanga á sigrinum. Eiður Smári Guðjohnsen var á varamannabekk Barca og kom ekki við sögu í leiknum sem sýndur var beint á sjónvarpsstöðinni Sýn.
