Innlent

Þrettán hundruð skráðir á landsfund Samfylkingarinnar

Landsfundur Samfylkingarinnar hófst í Egilshöll í morgun og höfðu þá um þrettán hundruð manns skráð sig til þátttöku.

Landsfundur hófst klukkan ellefu með skráningu fulltrúa. Málefnavinna starfshópa byrjar klukkan eitt og stendur fram eftir degi. Formleg setningarathöfn verður síðan klukkan fjögur með stefnuræðu formanns Samfylkingarinnar, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur.

Þetta er í fyrsta sinn sem Ingibjörg Sólrún leiðir flokk sinn í kosningum til Alþingis. Flokkurinn hefur dalað mjög í skoðanakönnunum undanfarið og fýsir eflaust marga að vita hvernig formaðurinn hyggst sækja fram þennan mánuð sem eftir er til kosninga.

Sérstakir gestir á landsfundi verða Mona Sahlin, leiðtogi sænskra, jafnaðarmanna og Helle Thorning Schmidt, leiðtogi danskra jafnaðarmanna. Þær ávarpa fundinn að lokinni ræðu formannsins.

Landsfundurinn heldur síðan áfram á laugardag þar sem ýmsir taka til máls, meðal annars Einar Kárason rithöfundur, Svafa Grönfeldt rektor Háskólans í Reykjavík og Bjarni Ármannsson forstjóri Glitnis. Ályktanir verða afgreiddar síðdegis á morgun og annaðkvöld lýkur fundinum með lokahófi á Grand hóteli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×