Innlent

Samræmd próf burt og fræðsluskylda til 18 ára aldurs

Starfshópur menntamálaráðherra sem falið var að fara yfir skipulag náms og námsframboðs leggur til að samræmd próf verði lögð niður og að gjaldfrjáls fræðsluskylda verði til 18 ára aldurs. Ráðherra skipaði hópinn í júní 2006 og hefur hann nú skilað ítarlegri skýrslu sem snýr að grunn- og framhaldsskólum.

Þar er meðal annars lagt til að breytingar verði gerðar á námskrám og kennsluháttum í grunn- og framhaldsskólum með það að markmiði að koma til móts við einstaklingsbundnar þarfir og undirbúa nemendur betur fyrir líf og starf á 21. öldinni. Þá vill hópurinn að réttur grunnskólanema til að stunda nám í framhaldsskólum samhliða námi í grunnskólanum, eins og sumir hafa gert, verði lögfestur.

Þá verði skylt að tryggja rétt nemenda til náms við hæfi í framhaldsskólum til 18 ára aldurs en núverandi kerfi tryggir einungis rétt 16 ára nemenda til að hefja nám í framhaldsskóla.

Í námi til stúdentsprófs gerir hópurinn ráð fyrir aukinni jafngildingu bóknáms og verknáms, aukinni ábyrgð einstakra framhaldsskóla á skilgreiningu námsins og auknu vali nemenda. Nemendur fái þannig aukinn rétt til að setja saman nám sitt með hliðsjón af áformum sínum um nám og störf að loknum framhaldsskóla. Þá vill hópurinn að byggt verði ofan á núverandi starfsmenntabrautir, en lagarammi þess er óljós við núverandi aðstæður að mati hópsins.

Þá vill starfshópur menntamálaráðherra að ráðgjafa- og stoðkerfi skólanna verði eflt til muna þannig að aukið val nemenda og svigrúm skóla til að móta námsframboð sitt nýtist í þágu betri og meiri menntunar.

Skýrslu starfshópsins má nálgast í heild sinni hér.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×