Niðurstöður rannsóknar sem birt var á heimasíðu New York Times á þriðjudagskvöldið hafa valdið nokkru fjaðrafoki í NBA deildinni. Í könnuninni, sem var úttekt á dómgæslu á 13 árum fram að 2004, kom í ljós að hvítir dómarar virtust dæma áberandi fleiri villur á svarta leikmenn. Forráðamenn NBA deildarinnar blása á þessar niðurstöður og segja þeir ekki marktækar.
Það voru aðstoðarprófessor við Pennsylvania háskólann og nemandi við Cornell sem gerðu þessa rannsókn og hún leiddi í ljós að hvítir dómarar virtust dæma villur á svarta leikmenn í 2,5-4,5% fleiri tilvikum en á menn af sínum kynþætti. Nokkur munur kom einnig fram í dómgæslu svartra dómara, en hann var fjarri því að vera eins mikill.
Talsmaður NBA deildarinnar sagði að deildin sjálf hefði gert viðlíka rannsókn á leikjum frá árinu 2004 til 2007- og sagði að ekkert athugavert hefði komið fram í henni. Hann var beðinn um að upplýsa niðurstöðurnar, en deildin vildi ekki láta upplýsingarnar af hendi þar sem það teldist trúnaðarbrot við dómara.