Vladimir Putin forseti Rússlands bað ríkisstjórn sína í dag að taka upp viðræður við Evrópusambandið vegna deilu við Pólverja. Frá árinu 2005 settu Rússar innflutningsbann á kjöt frá Póllandi. Síðan hafa Pólverjar staðið í vegi fyrir því að ESB hefji viðræður við Rússa vegna málsins.
Bannið settu Rússar upphaflega af heilbrigðisástæðum. Evrópusambandið grunar hins vegar að pólitískar ástæður geti legið að baki banninu.
Í fyrra hótuðu Rússar að teygja bannið til allra dýraafurða frá öðrum aðildarlöndum Evrópusambandsins.
Á leiðtogafundi Rússa og ESB í síðustu viku varaði Jose Manuel Barroso forseti framkvæmdastjórnarinnar við því að litið yrði á aðgerðir gegn einu aðildarlandanna sem aðgerðir gegn þeim öllum. Þetta var aðeins eitt af ágreiningsefnum aðilanna á fundinum.
Putin lagði áherslu á það við landbúnaðarráðherra landsins í dag að nauðsynlegt væri að leysa deiluna sem fyrst á faglegan hátt, án pólitískra áhrifa.