Lögreglan í Simbabve handtók meira en 200 meðlimi stjórnarandstöðunnar sem funduðu um pólitísk mál í höfuðborginni Harare í dag. Nelson Chamisa talsmaður stærsta stjórnarandstöðuflokks landsins sagði CNN að lögreglan hefði brotist inn með því að brjóta niður hurðar og hefði síðan tekið fólkið höndum.
Aðgerðin minnir á handtöku leiðtogans Morgan Tsvanigirai sem var beittur líkamlegu ofbeldi eftir handtöku sína. Robert Mugabe forseti landsins sakaði hann um að vera hallan undir vesturlönd.
Fyrr í vikunni tilkynnti lögreglan að bann væri við fundum og mótmælum í borginni. Hinum handteknu er ekki heimilt að fá heimsóknir.
Chamisa líkti ástandinu í höfuðborginni við neyðarástand og sagði aðgerðirnar sýna að ríkisstjórnin beitti örþrifaráðum.
Mugabe hefur haldið þjóð sinni í heljargreipum síðustu ár. Öryggissveitir hans hafa reglulega áreitt stjórnarandstöðuna. Stjórnvöld hafa sakað hana um að nota grimmilegar aðferðir við að mótmæla stefnu þeirra.