Sjía klerkurinn Múktada al-Sadr ákallaði í kvöld Arabaríki um allan heim og bað þau um hjálp við að binda enda á þjáningar Íraka. Hann kom fram í sínu fyrsta sjónvarpsviðtali í kvöld síðan hann kom úr felum fyrir tveimur vikum síðan. Hann hafði verið í felum síðan Bandaríkjamenn hertu öryggisaðgerðir sínar í Írak í miðjum febrúar.
Al-Sadr hafnaði aðgerðum erlendra aðila í Írak og ítrekaði þá afstöðu sína að herlið Bandaríkjanna í Írak væri ekkert annað en hernámslið. Al-Sadr er höfuðpaur Mehdi hersins svokallaða sem hefur barist harkalega gegn Bandaríkjamönnum. Bandaríkjamenn hafa sakað Írana um að þjálfa liðsmenn Mehdi hersins og sjá þeim fyrir sprengjum og vopnum í baráttunni við sig.
Í viðtalinu sagði hann jafnframt að hann væri reiðubúinn til þess að vernda alla hópa Íraka fyrir því ofbeldi sem þar ríkir, sama hvaða trúar þeir væru.