Forseti Venesúela, Hugo Chavez, er nú kominn til Rússlands til viðræðna við Vladimir Putin, forseta Rússlands, um kaup á hergögnum. Búist er við því að Chavez eigi eftir að festa kaup á nokkrum þyrlum og skoða kafbáta. Þetta er önnur heimsókn hans til Rússlands á undanförnu ári.
Chavez virðist staðráðinn í því að draga úr áhrifum Bandaríkjanna í Suður-Ameríku og vígvæðing Venesúela er ein af þeim leiðum sem hann ætlar sér að fara í þeim tilgangi. Þá er hann einnig að reyna að koma sér upp öflugum bandamönnum víðs vegar um heiminn.