Veigar Páll fór mikinn með Stabæk í norsku úrvalsdeildinni um helgina. Hann skoraði þrennu í 5-1 sigri liðsins á Odd Grenland og fékk afburðadóma fyrir í norsku pressunni.
Blaðamaður Aftonbladet gaf Veigari Páli níu í einkunn sem er afar sjaldséð einkunn. Hann fékk átta hjá Verdens Gang og Dagbladet, en sjö hjá Nettavisen.
Enginn Íslendingur í norska boltanum hefur fengið jafnháar einkunnir fyrir frammistöðu í einum leik í sumar.
Alls komu tíu Íslendingar við sögu í leikjum 20. umferðar norsku úrvalsdeildarinnar og voru hinir níu talsvert langt frá Veigari Páli.
Næstbestu einkunnirnar fékk Kristján Örn Sigurðsson, leikmaður Brann. Hann fékk 5,5 í meðaleinkunn.
Lægstur var Ármann Smári Björnsson, einnig hjá Brann. Hann fékk 3 í meðaleinkunn.