Djurgården og Gautaborg unnu bæði leiki sína í sænsku úrvalsdeildinni í kvöld. Liðin eru jöfn að stigum á toppi deildarinnar en lokaumferðin verður leikin næsta sunnudag. Bæði lið hafa 46 stig en Kalmar er með 45 stig í þriðja sæti.
Gautaborg vann AIK 1-0 á útivelli en landsliðsmennirnir Ragnar Sigurðsson og Hjálmar Jónsson léku báðir allan leikinn fyrir Gautaborg.
Gautaborg hefur betri markatölu en Djurgården, þar munar þremur mörkum.
Djurgården vann Halmstad 2-1 á útivelli eftir að hafa lent undir í leiknum. Sigurður Jónsson er þjálfari Djurgården.
Þá léku Eyjólfur Héðinsson og Jóhann B. Guðmundsson allan leikinn fyrir GAIS þegar liðið tapaði fyrir Malmö 1-2 í kvöld.
Það verður háspenna í titlbaráttunni þegar lokaumferðin verður leikin næsta sunnudag. Gautaborg er í góðri stöðu en liðið mætir Trelleborg á heimavelli í lokaumferðinni. Trelleborg er í næstneðsta sæti deildarinnar.
Djurgården tekur á móti botnliði Brommapojkarna en Kalmar tekur á móti AIK.