Sænska lögreglan leitar nú tveggja ungra kvenna sem misþyrmdu ungum manni svo hrottalega í Lundi að það varð að flytja hann á sjúkraús.
Konurnar réðust á manninn þar sem hann var að hlýða kalli náttúrunnar síðastliðna nótt. Eins og á Íslandi er bannað í Svíþjóð að pissa á almannafæri.
Sjónarvottum leist svo illa á aðfarir kvennanna að þeir hringdu í lögregluna sem kom fljótlega á vettvang.
Þá voru þær horfnar en maðurinn lá eftir í götunni. Það fossblæddi úr honum og hann var í andnauð. Hann var því fluttur í skyndi með sjúkrabíl á Háskólasjúkrahúsið í Lundi.