Samkvæmt frétt spænska dagblaðsins Marca í dag mun annað hvort Frank Rijkaard knattspyrnustjóri Barcelona eða Brasilíumaðurinn Ronaldinho fara frá liðinu á næstunni.
Ronaldinho hefur reglulega verið orðaður við AC Milan en gengi Barcelona í spænsku deildinni hefur orðið til þess að Frank Rijkaard hefur mátt þola mikla gagnrýni í spænskum fjölmiðlum.
Barcelona hefur þó ítrekað neitað þessum sögusögnum en þær hafa nú öðlast nýtt líf eftir tap liðsins fyrir Real Madrid á heimavelli á sunnudaginn síðastliðinn.
Því er haldið fram að Ronaldinho og Rijkaard komi ekki sérstaklega vel saman og að þeir hafi rifist á æfingasvæði Barcelona í síðustu viku. Ronaldinho var þó í byrjunarliði Barcelona gegn Real Madrid en það er einnig afar augljóst að hann er ekki í jafngóðu líkamlegu formi og hann var í fyrir fáeinum misserum.
Því hefur einnig verið haldið fram að Rijkaard muni hætta hjá Barcelona í lok leiktíðarinnar sama hvernig liðinu gangi nú síðari hluta tímabilsins.
Niðurstaðan gæti einnig verið sú að báðir verði farnir frá félaginu þegar keppni hefst á næsta tímabili.