Talið er að þjálfarastóllinn sé nú farinn að hitna verulega undir Þjóðverjanum Bernd Schuster eftir að lið hans Real Madrid tapaði 1-0 fyrir Valladolid í spænsku deildinni í kvöld.
Það var aðeins glæsilegt mark frá Fabian Canobbio rétt eftir hlé sem skildi liðin að í kvöld, en Real hefði geta endurheimt toppsætið í deildinni með sigri. Gabriel Heinze lét reka sig af velli í lok leiks fyrir kjaftbrúk.
Barcelona er á toppnum með 25 stig úr 10 leikjum, Villarreal hefur 24 stig úr 10 leikjum og Valencia 23 stig líkt og Real sem hefur spilað 11 leiki.
Valencia tekur á móti Sporting Gijon í kvöld og getur með sigri komist á toppinn.