Sigurður Jónsson og lærisveinar hans í Djurgården unnu í dag 2-1 sigur á Halmstad á útivelli í sænsku úrvalsdeildinni. Djurgården er í sjöunda sæti deildarinnar af sextán liðum.
Eyjólfur Héðinsson var í byrjunarliði GAIS sem tapaði 1-4 fyrir Kalmar en Eyjólfur var tekinn af velli í leiknum. GAIS er í níunda sæti deildarinnar.
Hannes Þ. Sigurðsson var í byrjunarlið Sundsvall sem tapaði 2-0 fyrir Örebro. Ari Freyr Skúlason kom inn sem varamaður hjá Sundsvall sem er í fjórtánda sæti, þremur stigum frá fallsæti.
Í gær gerðu Norrköping og Gautaborg 2-2 jafntefli. Hjálmar Jónsson og Ragnar Sigurðsson voru báðir í byrjunarlið Gautaborgar sem situr í fjórða sæti deildarinnar, tólf stigum frá Kalmar sem er í efsta sæti.