"Elskan ég er með hausverk, komdu í koju." Prófessor Per Olov Lundberg, heilasérfræðingur við háskólann í Uppsölum í Svíþjóð segir að fullnæging sé kvalastillandi.
Hann segir að rannsóknir bæði á mönnum og dýrum hafi leitt þetta í ljós.
"Verkur í öxlum, höfði eða baki er oft til kominn vegna vöðvaspennu," segir Lundberg í viðtali við sænska Aftonbladet. "Eftir fullnægingu slakna vöðvarnir og verkirnir hverfa.
Kynlíf gegn sársauka virkar sérstaklega vel fyrir konur. Prófessorinn segir að örvun í leggöngum virki jafn vel og morfín.
Hann telur það vera leið náttúrunnar til þess hjálpa konum við að fæða börn.