Eiður Smári Guðjohnsen er í byrjunarliði Barcelona sem mætir Benidorm í 32-liða úrslitum spænsku bikarkeppninnar á heimavelli í kvöld.
Benidorm leikur í þriðju efstu deild á Spáni en Pep Guardiola, stjóri Barcelona, ætlar ekki að tefla á tvær hættur eftir að stórlið eins og Real Madrid datt úr bikarnum fyrir neðrideildarliði. Villarreal er einnig í mikilli hættu eftir að hafa tapað fyrri leiknum með stórum mun.
Hann gerir engu að síður þó nokkrar breytingar á byrjunarliði Barcelona frá síðasta leik en þó eru leikmenn í liðinu eins og Carles Puyol, Daniel Alves, Bojan Krkic og Lionel Messi.
Eiður Smári er á miðjunni ásamt Sergio Busquets og Seydou Keita en þeir Bojan og Messi eru í fremstu víglínu ásamt Aleksandar Hleb.
Þetta er síðari viðureign liðanna en þeirri fyrri lauk með 1-0 sigri Barcelona á útivelli.