Argentínski bakvörðurinn Manu Ginobili hjá San Antonio Spurs mun gangast undir uppskurð á næstu dögum eftir að hafa meiðst í undanúrslitaleik Ólympíuleikanna á dögunum.
Þetta eru slæm tíðindi fyrir San Antonio Spurs, því Ginobili er algjör lykilmaður í sigursælu liði Spurs. Hann er meiddur í vinstri hæl og gert er ráð fyrir því að hann verði í að minnsta kosti sex vikur að jafna sig.
Þessi sömu meiðsli gerðu Argentínumanninum sterka lífið leitt í úrslitakeppni NBA í vor og lögðust forráðamenn San Antonio gegn því að hann gæfi kost á sér á Ólympíuleikana með landsliði sínu.
Ginobili lét þær óskir sem vind um eyru þjóta og ótti forráðamanna Spurs varð að veruleika í undanúrslitaleik Ólympíuleikanna þegar Ginobili haltraði af velli meiddur í undanúrslitaleiknum - einmitt gegn liði Bandaríkjanna.
Ginobili var þegar þar var komið við sögu stigahæsti leikmaðurinn á Ól, en hann gat ekki spilað bronsleikinn vegna meiðsla sinna.
Nú hefur verið staðfest að hann muni fara undir hnífinn í Los Angeles í vikunni, en meiðsli hans eru ekki sögð alvarlegri en þau sem hrjáðu hann í vor.
Það breytir því ekki að Ginobili verður tæplega orðinn heill til að taka þátt í æfingabúðum San Antonio í haust, en ekki verður endanlega hægt að segja til um hvenær hann getur snúið aftur fyrr en eftir uppskurðinn.
Ginobili var kjörinn besti varamaðurinn í NBA deildinni síðasta vetur og hefur verið algjör lykilmaður í sigursælu liði San Antonio síðustu ár, en liðið varð NBA meistari með hann innanborðs árin 2003, 2005 og 2007.