Tíu leikir fóru fram í NBA deildinni í nótt. Atlanta stöðvaði ellefu leikja sigurgöngu Cleveland með 97-92 sigri á heimavelli og þar með mistókst LeBron James og félögum að setja félagsmet.
Mike Bibby var stigahæstur í liði Atlanta með 24 stig en James skoraði 33 stig fyrir Cleveland sem hefur aðeins tapað fjórum af 24 leikjum sínum í deildinni.
Dirk Nowitzki var í miklu stuði þegar lið hans Dallas vann nauman sigur á Oklahoma City 103-99 á heimavelli. Nowitzki skoraði 46 stig í leiknum en það er þriðja hæsta stigaskor hans í einum leik á ferlinum.
Dwight Howard missti af fyrsta leik sínum á ferlinum með Orlando í nótt, en það kom ekki að sök því lið hans vann sannfærandi útisigur á Utah 103-94. Howard er á sínu fimmta ári í deildinni og hafði spilað 351 leik í röð síðan hann var valinn númer eitt í nýliðavalinu árið 2004.
Þá vann lið LA Clippers annan leik sinn í röð í fyrsta skipti í allan vetur þegar liðið skellti Houston nokkuð óvænt.
Úrslitin í nótt:
Chicago Bulls 113-104 New Jersey Nets
Dallas Mavericks 103-99 Oklahoma City
Denver Nuggets 123-105 Golden State Warriors
Milwaukee Bucks 121-103 Indiana Pacers
Utah Jazz 94-103 Orlando Magic
Atlanta Hawks 97-92 Cleveland Cavaliers
Philadelphia 76ers 104-89 Washington Wizards
Charlotte Bobcats 86-90 Detroit Pistons
Sacramento Kings 90-114 New York Knicks
LA Clippers 95-82 Houston Rockets