Forseti Real Madrid á Spáni hefur lýst því yfir að félagið ætli sér að kaupa tvo leikmenn í janúarglugganum.
"Þið viljið fyrirsagnir og ég ætla að gefa ykkur þær," sagði Calderon í samtali við útvarpsstöð Marca.
"Við ætlum að kaupa tvo góða leikmenn í desember. Ég veit ekki hvað þeir heita, því Predrag Mijatovic sér um þá hlið mála, en ég veit að þeir verða ungir, fljótir og geta spilað í Meistaradeildinni," sagði forsetinn.
Real hefur verið orðað við marga leikmenn að undanförnu og þar á meðal Hernan Crespo hjá Milan, Mauro Zarate hjá Lazio, Karim Benzema hjá Lyono, Bastien Schweinsteiger, Andrei Arshavin hjá St. Pétursborg og Klaas-Jan Huntelaar svo einhverjir séu nefndir.
Real hefur átt í miklum vandræðum með meiðsli á leiktíðinni en Calderon bætti því við í sama viðtali að félagið myndi kaupa tvo eða þrjá heimsklassaleikmenn í sumar.
"Ég ætla ekki að gefa upp nöfn í því sambandi, því ég vil ekki búa til falskar væntingar," sagði Calderon.