Gamla brýnið og fyrrum heimsmeistarinn Evander Holyfield á ekki öfundsvert verkefni fyrir höndum þegar hann stígur inn í hnefaleikahringinn í Zurich annað kvöld.
Hinn 46 ára gamli og fjórfaldi heimsmeistari mætir þá rússnesku "ófreskjunni" Nikolai Valuev sem leggur WBA beltið sitt í þugavigt að veði.
Holyfield er engin smásmíði sjálfur og vó rúm 97 kíló við vigtunina í dag. Andstæðingurinn er hinsvegar 213 sentimetrar á hæð og vegur 141 kíló.
Valuev er hæsti heimsmeistari í sögu hnefaleika, en þó hann sé ekkert unglamb sjálfur er hann ellefu árum yngri en Bandaríkjamaðurinn Holyfield.
Holyfield varð síðast meistari þegar hann vann John Ruiz í umdeildum bardaga fyrir átta árum síðan, en hans er því miður oftast minnst fyrir að vera maðurinn sem missti hluta af öðru eyranu í viðureign sinni við Mike Tyson á sínum tíma.