Næst síðustu umferð sænsku úrvalsdeildarinnar lauk í kvöld með þremur leikjum. Ragnar Sigurðsson og Hjálmar Jónsson léku allan tímann í vörn Gautaborgar sem vann Sigurð Jónsson og lærisveina hans í Djurgården 3-1.
Elfsborg vann öruggan 3-0 sigur á Halmstad. Helgi Valur Daníelsson var í byrjunarliði Elfsborg en var tekinn af velli á 80. mínútu. Elfsborg er þremur stigum á eftir toppliði Kalmar fyrir lokaumferðina sem verður um næstu helgi. Kalmar hefur hinsvegar mun betri markatölu og á því sigurinn vísan.
Gautaborg er í þriðja sæti deildarinnar. Þá var boðið upp á markaveislu í leik Hammarby og Malmö sem endaði 3-6.