Real Madrid mun hafa gengið frá samningum við hinn sextán ára Brasilíumann Alipio Duarte Brandano sem leikur með neðrideildarliði í Portúgal.
Fjölmiðlar í Portúgal kalla hann „litla Ronaldo" þar sem hann býr yfir miklum hraða og mikilli tækni. Chelsea mun einnig hafa verið á höttunum eftir Brandano en í dag greindi Marca frá því að Real Madrid hafi samið við hann.
Útsendarar á vegum Real Madrid staðfestu að þeir myndu funda með Brandano og föður hans í dag en Brandano varð sextán ára gamall nú í sumar.
Búist er við því að hann fari fljótlega til Madrid til að klára alla pappírsvinnu og að hann verði orðinn leikmaður Real Madrid strax í næstu viku. Hann mun fyrst um sinn spila með unglingaliði félagsins.