Reggina gerði 2-2 jafntefli við Bologna í ítölsku úrvalsdeildinni í dag en bæði lið eru í einu af fallsætum deildarinnar.
Emil Hallfreðsson var ekki í leikmannahópi Reggina í dag en liðið er í átjánda sæti deildarinnar með tólf stig, einu meira en Bologna. Chievo er í neðsta sætinu með níu stig.
AC Milan vann 1-0 sigur á Catania þökk sé marki Kaka í síðari hálfleik og þá vann Juventus lið Lecce á útivelli, 2-1.
Sebastian Giovinco kom Juventus yfir snemma í síðari hálfleik en Daniele Cacia jafnaði metin undir lokin. Það var svo Amauri sem tryggði Juventus sigur með marki á lokamínútu leiksins.
Juventus og AC Milan eru bæði með 30 stig í 2.-3. sæti deildarinnar, sex stigum á eftir toppliði Inter.
Í kvöld mætast svo Sampdoria og Genoa í lokaleik 15. umferðar.
Úrslit dagsins:
AC Milan - Catania 1-0
Atalanta - Udinese 3-0
Cagliari - Palermo 1-0
Lecce - Juventus 1-2
Napoli - Siena 2-0
Reggina - Bologna 2-2
Torino - Fiorentina 1-4