Eiður Smári Guðjohnsen er hetja dagsins í Barcelona eftir sigurmark hans í leiknum gegn Real Betis í gær.
Þetta var annars sigur Börsunga í röð eftir 6-1 stórsigur liðsins á Sporting Gijon um síðustu helgi. Eiður Smári kom inn á sem varamaður í þeim leik, rétt eins og í gær.
Mark Eiðs Smára í gær var hans fyrsta á tímabilinu með Börsungum og það fyrsta síðan í janúar síðastliðnum er hann skoraði eitt marka liðsins í 4-0 sigri á Real Murcia.
Reyndar skoraði hann aðeins tvö deildarmörk á síðasta keppnistímabili og var því markið í gær kærkomið fyrir hann.
Spænskir fjölmiðlar eru fljótir að breyta mönnum í hetju og skúrka og féll Eiður Smári í fyrrnefnda flokkinn eftir frammistöðuna í gær. Þeir sögðu að mark Eiðs hefði bjargað Barcelona frá slæmu tapi enda hefur tímabilið byrjað heldur illa hjá Börsungum.
Barcelona er þó í fimmta sæti deildarinnar, aðeins tveimur stigum á eftir Real Madrid sem er í öðru sæti deildarinnar og þremur á eftir Villarreal sem er í efsta sæti.
Spænskir fjölmiðlar velta nú einnig fyrir sér stöðu Thierry Henry sem var geymdur á bekknum í gær. Það hafi komið flestum í opna skjöldu er Eiði Smára var skipt inn á en ekki Henry.
Samuel Eto'o virðist nú vera fyrsti kostur í fremsta sóknarmann og þá verður þeim Andrés Iniesta og Lionel Messi varla haggað á köntunum. Innkoma Eiðs Smára í gær gerir það að verkum að staða Henry er enn verri en áður.