GIF Sundsvall og Djurgården gerðu markalaust jafntefli í sænsku úrvalsdeildinni í dag en Kalmar styrkti stöðu sína á toppi deildarinnar.
Sölvi Geir Ottesen var í byrjunarliði Djurgården og lék allan leikinn rétt eins og Sverrir Garðarsson og Hannes Þ. Sigurðsson hjá Sundsvall.
Ari Freyr Skúlason lék síðustu fimm mínúturnar í liði Sundsvall.
Þá vann topplið Kalmar 1-0 sigur á Trelleborg og Malmö vann 3-0 útisigur á Örebro.
Kalmar er með fimm stiga forystu á Djurgården á toppi deildarinnar en bæði lið hafa leikið níu leiki. Djurgården er með sautján stig en bæði Elfsborg og Malmö með sextán stig eftir níu leiki.
IFK Gautaborg getur komið sér í annað sæti deildarinnar með sigri á Hammarby síðar í dag.
