Birkir Már Sævarsson skoraði annað marka Brann í 2-0 sigri á öðru Íslendingaliði, Lyn. Garðar Jóhannesson skoraði fyrir Fredrikstad í dag, sem og Birkir Bjarnason fyrir Bodö/Glimt.
Ólafur Örn Bjarnason lék fyrstu 60 mínúturnar í liði Brann og Ármann Smári Björnsson allan leikinn. Birkir Már kom inn á í hálfleik.
Kristján Örn Sigurðsson og Gylfi Einarsson voru ekki í leikmannahópi Brann í dag.
Indriði Sigurðsson og Theódór Elmar Bjarnason voru í byrjunarliði Lyn en þeim síðarnefnda var skipt út af undir lokin. Arnar Darri Pétursson var á varamannabekk Lyn.
Brann skoraði bæði mörkin á þriggja mínútna kafla undir lok leiksins.
Fredrikstad lenti marki undir gegn Strömsgodset en Garðar Jóhannesson jafnaði metin fyrir fyrrnefnda liðið sem vann svo leikinn, 2-1.
Bodö/Glimt gerði 2-2 jafntefli við Ham/Kam á útivelli og skoraði Birkir Bjarnason síðara mark Glimt í leiknum. Hann lék allan leikinn.
Þá vann Viking 1-0 sigur á Vålerenga en síðar í dag mætast Álasund og Rosenborg.
Fredrikstad er í þriðja sæti deildarinnar með 39 stig, eins og Tromsö sem er í öðru sæti. Stabæk er í efsta sæti með 42 stig en á leik til góða.
Bodö/Glimt er í fjórða sæti með 36 stig og Brann í því áttunda með 29 stig.
