Framherjinn skrautlegi Ron Artest hjá Sacramento Kings segist sjá mikið eftir því að hafa ekki fengið sig lausan frá samningi sínum við félagið í sumar og segist vilja spila undir stjórn Phil Jackson hjá LA Lakers.
Mikið hefur verið slúðrað um möguleg skipti Kings og Lakers á þeim Artest og Lamar Odom, en ekkert hefur orðið að veruleika í þeim efnum.
Artest hefur sjálfur verið í daglegum tölvupóstsamskiptum við fjölmiðlamenn í Bandaríkjunum og skiptir stundum um skoðun daglega varðandi framtíð sína.
Hann vill meina að hann njóti ekki þeirrar virðingar sem hann á skilið hjá Sacramento Kings, því honum hafi ekki verið boðinn feitur samningur í sumar.