Viðskipti erlent

Kreppan kemur við kaunin hjá Magasin du Nord

Fjármálakreppan setur strik í reikningin hvað jólaverslunina í Danmörku varðar og á það einnig við um stórverslunina Magasin du Nord sem er í eigu Íslendinga. Það eru þó ekki Danir sjálfir sem spara við sig jólainnkaupin heldur aðrir Norðurlandabúar sem heimsækja Magasin, einkum Svíar.

Business.dk fjallar um málið og ræðir við Carsten Fensholt fjármálastjóra Magasin í Kaupmannahöfn. "Það skortir einfaldlega ferðamenn í Kaupmannahöfn í augnablikinu," segir Fensholt. "Það eru sérstaklega Svíar sem hafa ákveðið að vera heima hjá sér þessi jólin sökum þess hve sænska krónan er veik. En það er einnig áberandi hve fáir Norðmenn koma nú samanborið við áður fyrr.

Salan hjá Magasin frá í haust, að jólaversluninni meðtalinni, er 3-5% minni en á sama tíma í fyrra er sölumet var slegið.

Fensholt segir að þeir geti séð á greiðslukortakvittunum að það séu einkum ferðamenn sem sækja verslunina í minna mæli en áður.

Hann segir þó að jólaverslunin sé í viðunandi horfi þrátt fyrir allt talið um fjármálakreppuna.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×