Erlent

Vill að Finnar gangi í NATO

Jan-Erik Enestam er m.a. fyrrverandi varnarmálaráðherra Finnlands.
Jan-Erik Enestam er m.a. fyrrverandi varnarmálaráðherra Finnlands.

Jan-Erik Enestam framkvæmdastjóri Norðurlandaráðs mælir með aðild Finna að NATO í blaðagrein. Hann segir finnska herinn standa frammi fyrir miklum og erfiðum skipulagsbreytingum ef hann nýtur ekki þeirra kosta sem aðild að NATO fela í sér.

"Peningarnir ráða för. Gæði eiga að koma í stað magns, sem hefur í för með sér að herstöðvum er lokað og fækkað í herliði. Enda þótt aðild breyti engu um að Finnar þurfi að laga sig að breyttri stöðu í varnarmálum, yrðu breytingarnar ekki eins viðamiklar," skrifar Enestam í grein sinni í dagblaðinu Salon Seudun Sanomat á miðvikudag.

Finnland ætti samkvæmt Enestam að taka mið af þeirri reynslu sem Danmörk og Ísland ásamt Eystrasaltsríkjunum hafa af NATO.

"Það er auðvelt að sjá að hræðsluáróður andstæðinga NATO hefur ekki við rök að styðjast. Aðildinni er ekki mótmælt í þessum ríkjum. Hvers vegna ættu aðstæður að vera öðru vísi hjá okkur," spyr Enestam sem áður hefur meðal annars gegnt embætti varnarmálaráðherra Finnlands.

Enestam finnst ekki mikið til um þau rök NATO-andstæðinga að engin hernaðarógn steðji að Finnum í dag. . Ef ógnin sýnir sig, er orðið of seint að sækja um aðild. Enestam minnir einnig á að Finnar hafir lengi reynt að fá aðild að alþjóðlegum og svæðisbundnum varnarsamtökum.

"NATO er eina mikilvæga alþjóðasamstarfið sem Finnar eiga ekki aðild að. Það virðist þó ekki tímabært að gerast aðili. Á meðan þess er beðið, er skynsamlegt að efla varnarsamstarf við Svía og Norðmenn. Og Norðmenn eiga þrátt fyrir allt aðild að NATO," skrifar Enestam.

Carl Bildt utanríkisráðherra Svíþjóðar lagði nýlega til að norrænu ríkin tækju upp nánara öryggis- og varnarmálasamstarf. Tarja Halonen forseti Finnlands og Ilkka Kanerva utanríkisráðherra eru einnig fylgjandi auknu samstarfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×