Sögufrægt lið Boston Celtics í NBA deildinni hefur heldur betur vaknað úr dvalanum í vetur og situr á toppi deildarinnar. Þessi bætti árangur hefur nú skilað sér í kassann hjá félaginu.
Boston toppaði þannig allar sölutölur í NBA búðinni í New York yfir hátíðarnar og ekkert lið seldi meiri varning. Þá var keppnistreyja Kevin Garnett sú allra vinsælasta, en hann gekk í raðir liðsins frá Minnesota í sumar.
Þetta er í fyrsta sinn frá því sölulisti NBA yfir varning var fyrst tekinn saman árið 2001 sem Boston eða Garnett eru í efsta sæti listans.
Þó ber að hafa í huga að leikmenn sem skipta um lið eru jafnan ofarlega í sölutölum þegar nýir aðdáendur kaupa sér gjarnan treyjur þeirra við félagaskiptin - líkt og var t.d. með Allen Iverson þegar hann fór til Denver um árið.
Sala á treyjum Garnett hefur þannig þrefaldast síðan á síðasta tímabili þegar hann var aðeins í 16. sæti yfir mest seldu treyjurnar og komst ekki inn á lista söluhæstu. Þá hefur varningur Boston einnig þrefaldast í sölu frá því á síðasta ári þegar það var í sjöunda sætinu.