Kobe Bryant skoraði 36 stig og Pau Gasol 30 þegar að LA Lakers vann Orlando Magic á útivelli, 117-113.
Lakers seig fram úr á lokamínútu leiksins með fjórum stigum úr vítaköstum hjá Bryant og þá fékk Lamar Odom tveggja stiga körfu dæmda sér í hag eftir að Dwight Howard varði boltann ólöglega.
Leikurinn var annars kaflaskiptur. Orlando var með ellefu stiga forystu eftir fyrsta leikhluta, 44-33. Lakers náði svo eins stigs forystu í hálfleik, 64-63, og tóku þá völdin í leiknum. En Orlando jafnaði metin aftur og voru lokamínútur leiksins afar spennuþrungnar.
Howard skoraði nítján stig fyrir Orlando og tók ellefu fráköst þar að auki.
Sacramento batt enda á tíu leikja sigurgöngu Utah Jazz með þrettán stiga sigri á heimavelli, 117-104. Kevin Martin var stigahæstur hjá Sacramento með 27 stig.
Denver Nuggets vann Washington, 111-100, og skoraði Carmelo Anthony 49 stig í leiknum sem er persónulegt met hjá honum í NBA-deildinni.
Phoenix vann sigur á Seattle, 103-99, þar sem Amare Stoudemire skoraði 33 stig. Þar af komu fimmtán úr vítaköstum en leikmenn Phoenix nýttu öll 32 vítaköstin sín í leiknum.
Phoenix skoraði fimm síðustu stigin í leiknum, þar af úr víti sem liðið fékk eftir að tæknivilla var dæmd á Seattle fyrir að taka leikhlé sem það átti ekki inni.
San Antonio vann New York, 99-93, eftir að hafa verið átján stigum undir í þriðja leikhluta. Leikurinn var framlengdur eftir að Michael Finley skoraði úr þriggja stiga skoti á lokasekúndu fjórða leikhlutans.
Boston vann nauman sigur á Minnesota, 88-86, en Leon Powe skoraði sigurkörfu leiksins rétt áður en lokaflautið gall. Paul Pierce var með átján stig í leiknum og Ray Allen sautján.
Detroit vann sinn sjöunda sigur í röð eftir að hafa unnið Portland í nótt, 91-82. Brandon Roy, leikmaður Portland, lék ekki með í leiknum vegna dauðsfalls í fjölskyldu sinni.
Cleveland vann Atlanta, 100-95, á útivelli og skoraði LeBron James 26 stig og tók ellefu fráköst fyrir Cleveland.
New Jersey Nets vann langþráðan sigur á Charlotte, 104-90. Richard Jefferson skoraði 23 stig fyrir New Jersey og Jason Kidd náði sinni tólftu þreföldu tvennu á leiktíðinni er hann skoraði nítján stig, tók ellefu fráköst og gaf þrettán stoðsendingar.
LA Clippers vann óvæntan útisigur á Toronto, 102-98. Corey Maggette var með 35 stig fyrir Clippers en Chris Bosh 29 stig fyrir Toronto auk þess sem hann tók tólf fráköst.
Þá vann Dallas ellefu stiga sigur á Memphis, 92-81.