John McCain er í heimsókn í Bretlandi þar sem hann meðal annars átti fund með Gordon Brown, forsætisráðherra.
Ólíkt þeim Hillary Clinton og Barack Obama hefur McCain tekið skýra afstöðu með áframhaldandi veru bandarískra hermanna í Írak.
Hann segir að liðsaukinn sem Bandaríkin sendu til Íraks hafi skilað miklum árangri. Hann er sjálfur nýkominn úr heimsókn þaðan.
Hann segir að víðast hvar í landinu sé fólk farið að lifa eðlilegu lífi. Al Kæda hryðjuverkasamtökin séu á flótta.
McCain leggur áherslu á að alls ekki sé búið að sigra Al Kæda. Til þess þurfi staðfestu og áframhaldandi hersetu bandamanna í Írak.
John McCain er sjálfur fyrrverandi orrustuflugmaður úr Vietnam. Þar er hann talinn hafa sýnt mikinn hetjuskap og hugrekki, bæði í bardögum og ekki síður í fangabúðum Norður-Vietnama þar sem hann sat í mörg ár.