Fótbolti

Mancini var tæpur um helgina

NordicPhotos/GettyImages

Ítalskir fjölmiðlar greina frá því í dag að forseti Inter Milan hafi verið hársbreidd frá því að reka þjálfarann Roberto Mancini eftir 2-1 tap liðsins gegn Juventus um helgina.

Massimo Moratti mun vera orðinn þreyttur á slæmu gengi liðsins að undanförnu, en auk þess að falla úr Meistaradeildinni hefur liðið glutrað niður ellefu stiga forskoti sínu á toppnum sem nú er komið niður í fjögur stig.

Þá féll yfirlýsing Mancini eftir tapið í Meistaradeildinni ekki í mjög ljúfan jarðveg, en þá sagðist þjálfarinn ætla að hætta eftir tímabilið - en sneri við blaðinu sólarhring síðar.

Tuttosport segir að forsetinn hafi verið kominn á fremsta hlunn með að reka Mancini eftir að Inter var yfirspilað af Juventus um helgina, en hafi svo gert sér grein fyrir því að erfitt yrði að finna eftirmann þjálfarans þegar aðeins átta umferðir eru eftir af deildarkeppninni.

Þeir Jose Mourinho og Rafa Benitez hjá Liverpool hafa oft verið nefndir til sögunnar sem eftirmenn Mancini hjá Inter, en líklegt þykir að hann eigi sér ekki framtíð hjá félaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×