Brasilíumaðurinn Ronaldinho getur ekki leikið með Barcelona næstu sex vikurnar vegna meiðsla á læri. Þetta tilkynnti spænska félagið í dag.
Ronaldinho meiddist á æfingu í gær og segja má að þessi meiðsli hans kóróni óheppnina sem hefur elt hann í vetur. Brasilíumaðurinn hefur ekki náð sér á strik með Barcelona og hluta af því má skrifa á þrálát meiðsli hans.
Félagið fékk þó góðar fréttir í dag þegar tilkynnt var að Lionel Messi gæti orðið klár í slaginn á ný fyrir síðari leik liðsins gegn Schalke í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar.