Ólafur sagði í samtali við Markaðinn fyrir mánuði fyrirtækið ekki hafa fengið gjaldeyri í tíu daga, allt vera stopp og menn horfa í gaupnir sér. „Nú höfum við fengið 14.544 evrur síðustu fimm vikur, en áttum að fá helling í viðbót,“ sagði hann í gær. Upphæðin sem beðið var eftir í tíu daga hafi reynst liggja í Seðlabankanum allan tímann.
Markaðurinn hefur heimildir fyrir því að fyrirtæki í útflutningi hafi í nokkrum mæli nýtt sér hjáleiðir fram hjá Seðlabankanum í erlendum viðskiptum sínum til að komast hjá þeirri tregðu sem skapaðist á íslenskum gjaldeyrismörkuðum eftir ríkisvæðingu bankanna.
Hjáleiðin felur í sér að útflutningsfyrirtækið semur við íslenskt fjármálafyrirtæki um stofnun yfirdráttareiknings í erlendum banka, jafnvel samstarfsbanka eða dótturfélagi hans á erlendri grund. Fjármálafyrirtækið tekur síðan veð í eign útflutningsfyrirtækisins erlendis. Þegar sala gengur í gegn dregur fjármálafyrirtækið á yfirdráttarheimildina en greiðir fyrirtækinu upphæðina fyrir eigin reikning hér heima. Andvirði sölu eigna útflutningsfyrirtækisins gengur síðan upp í yfirdráttinn og strikast við það út. Eftir því sem Markaðurinn kemst næst er hagnaður fjármálafyrirtækisins óverulegur.
„Við höfum skoðað þetta en treystum ekki þeim leiðum sem eru í boði, þetta er of áhættusamt,“ segir Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum.