Ben Gordon fór í nótt fram úr Scottie Pippen á listanum yfir þá sem skorað hafa flesta þrista í sögu Chicago Bulls í NBA deildinni.
Gordon hitti úr 6 af 8 langskotum sínum gegn Atlanta í gærkvöld og hefur nú skorað 669 þrista í aðeins 346 leikjum fyrir Chicago.
Gamla metið átti Scottie Pippen sem skoraði 664 þrista í 856 leikjum fyrir félagið.
Eins og sjá má á tölfræðinni hefur Gordon verið mun duglegri við að skjóta þristum en Pippen nokkru sinni, en Gordon er með 41,6% nýtingu úr langskotum á ferlinum með Bulls sem spannar á fimmta ár.
Pippen var hinsvegar aðeins með rúmlega 32% nýtingu úr langskotum á ferlinum þar sem hann spilaði lengst af með Chicago (1987-98).