Miðherjinn Greg Oden hjá Portland Trailblazers er enn að berjast við meiðsladrauginn sem hefur elt hann frá því hann var valinn fyrstur í nýliðavalinu í NBA í fyrrasumar.
Oden var frá alla síðustu leiktíð vegna hnéuppskurðar en spilaði loks sinn fyrsta leik með liðinu gegn LA Lakers í fyrrakvöld. Ekki vildi betur til en svo að Oden tognaði á fæti og verður frá keppni næstu 2-4 vikurnar.
"Ég finn til með honum. Þetta er stórt ár fyrir hann og það er mikil pressa á honum," sagði félagi hans Brandon Roy þegar fréttirnar lágu fyrir.
Oden er talinn mikið efni og margir vilja meina að ungt lið Portland geti farið langt með hann innanborðs í vetur og á næstu árum.