Ítalska félagið AS Roma ætlar að fara byggja nýjan 55 þúsund manna leikvang í vesturhluta Rómarborgar en félagið hefur leikið heimaleiki sína undan farin ár á Ólympíuleikvanginum í Róm eins og nágrannar þeirra í Lazio.
„Ég vona að þeir verði fljótir að byggja völlinn þannig að ég fái tækifæri til að spila á honum," sagði hinn 33 ára gamli fyrirliði liðsins Francesco Totti sem gerði nýlega nýjan fimm ára samning við félagið.
Rómverjar ætla ekki að halda í ítölsku hefðina því þeir ætla að hanna nýja leikvanginn sinn í enskum stíl þar sem áhorfendur eru mun nærri vellinum en gengur og gerist hjá ítölsku liðunum.
„Þetta skiptir miklu máli fyrir stemmninguna á vellinum og leikmenn og áhorfendur upplifa sig sem eina heild. Þannig er þetta allstaðar í Englandi og þar líður þér eins og mótherja en aldrei eins óvini," sagði Claudio Ranieri, þjálfari Roma og fyrrum stjóri Chelsea.
Það er ekki heldur venja á Ítalíu að félögin eigi vellina sjálf heldur leigja þá frá borgaryfirvöldum. Það er allt að breytast og Juventus varð fyrsta liðið til þess að byggja nýjan völl sem á að opna 2011. Inter Milan er líka með það á dagskrá að flytja frá San Siro sem er í dag heimavöllur beggja Mílanó-liðanna.