Mike Brown hjá Cleveland Cavaliers var í kvöld kjörinn þjálfari ársins í NBA deildinni eftir að hafa stýrt liðinu til besta árangurs allra liða í deildinni í vetur.
Cleveland vann 66 leiki í deildarkeppninni sem er langbesti árangur í sögu liðsins. Brown er jafnframt annar þjálfarinn í sögu félagsins sem fær þessa nafnbót, en áður hafði Bill Fitch verið útnefndur þjálfari ársins árið 1976.
Brown hafði mikla yfirburði í kjörinu í ár. Hann fékk 55 atkvæði í fyrsta sætið og hlaut alls 355 stig í kjörinu, en það er nefnd 122 íþróttafréttamanna sem stendur að því árlega.
Rick Adelman, þjálfari Houston varð annar í kjörinu með 151 stig og Stan Van Gundy hjá Orlando varð þriðji með 150 atkvæði.
Brown er aðeins 38 ára gamall og tók við liði Cleveland í júní árið 2005. Hann er 17 þjálfarinn í sögu Cleveland.