Skoðun

Þöggunarhugsun Ögmundar

Þorsteinn Pálsson skrifar
Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra skrifaði mánudagsgrein hér í blaðið undir fyrirsögninni: Þöggunarkrafa Þorsteins. Þar var vísað til þeirra ummæla minna að ráðherrann tali enn gegn samstarfssamningnum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Ég dró þá ályktun af þessari staðreynd að hún væri veikleikamerki fyrir ríkisstjórnina. Ráðherrann telur að í því mati felist krafa um þöggun.

Núverandi ríkisstjórn kaus að halda áfram því samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sem fyrri ríkisstjórn ákvað. Nýir flokkar í ríkisstjórn þurfa oft að miðla málum og kyngja hlutum sem þeir hafa áður verið andvígir. Ég gagnrýndi ekki flokk ráðherrans fyrir þá ákvörðun, þó að hún hafi verið stærri biti í háls en spurnir eru af við líkar aðstæður.

Enginn þarf að skammast sín fyrir að skipta um skoðun þegar meiri hagsmunir krefjast þess eins og einatt er við ríkisstjórnarmyndanir. Hitt er veikleikamerki að gera hvort tveggja í senn að sitja í ríkisstjórn og tala gegn grundvelli stefnu hennar í efnahags- og ríkisfjármálum. Ég andmælti hins vegar ekki rétti heilbrigðisráðherrans til þess.

Vegna ásakana ráðherrans um þöggunarkröfu af minni hálfu er rétt að hafa í huga að ég hef enga hagsmuni af því að þagga niður umræðu um þennan ágreining.

En heilbrigðisráðherrann getur ekki með rökum andmælt því að áframhaldandi andstaða hans við Alþjóðagjaldeyrissjóðssamvinnuna rýrir trúverðugleika fjármálaráðherrans sem dag hvern þarf að halda uppi vörnum fyrir hana. Andstaðan er líka til þess fallin að draga úr trú manna á að nægjanleg samstaða sé í ríkisstjórninni til þess að fullnægja kröfum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um aðhaldsaðgerðir í ríkisfjármálum þegar til lengdar lætur.

Vel má vera að ráðherrann telji þetta nauðsynlegt lýðræðisins vegna. Í því felst hins vegar engin ný lýðræðishugsun, heldur pólitískur veruleiki sem oft hefur verið uppi í ríkisstjórnum sem ekki eru einhuga. Ályktun mín um að þetta sé dæmi um veikleika standur því óhögguð.

Höfundur er fyrrverandi forsætisráðherra og ritstjóri.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×